Það borgar sig að flana ekki að neinu heldur gefa sér góðan tíma við val á rétta bílnum.
Hvernig bíll?
Í upphafi verður að gera sér grein fyrir því hvernig bíl er leitað að, hvernig á að nota hann og hvað hann má kosta. Taka þarf tillit til stærðar, öryggis, þæginda og umhverfisins. Gerið raunhæfa fjárhagsáætlun, greiðslugetan takmarkar þá bíla sem koma til greina. Bílar eru dýrir í rekstri þannig að nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir eldsneytisnotkun, varahlutaverði og endursölumöguleikum áður en endanleg ákvörðun er tekin. Sýnið fyrirhyggju og metið alla kostnaðarþætti.
Kannið framboð bifreiða á bílasölum og lesið auglýsingar
Farið á milli bílasala og fylgist með smáauglýsingum. Með því að kynna sér vel þá bíla sem boðnir eru til sölu er hægt að áætla markaðsverð og framboð. Ef hugmyndin er að nota bíl í skipti þarf einnig að kanna markaðsstöðu þess bíls. Það getur borgað sig að selja bíl frekar en bjóða hann í skiptum. Kynnið ykkur afföll og afslætti, það er vinna sem er fljót að borga sig.
Fallið ekki fyrir sölufrösum eins og „það kemur kúnni seinna í dag sem hefur mikinn áhuga á bílnum“, eða „ég læt þig fá bílinn á sérstöku tilboðsverði“. Góð regla er að vera varkár og skoða vel bíla sem koma til greina.
Allir viðskiptavinir fá sérstakt tilboðsverð og það er hagur bílasala að viðskiptavinurinn ákveði sig sem allra fyrst. Farið ykkur hægt, það er oft meira framboð en eftirspurn.
Kannið ástandið
Það verður að gefa sér nægan tíma til að kanna ástand þeirra bíla sem vekja áhuga. Eigin könnun er fyrst og fremst til að flokka þá bíla frá sem ekki koma til greina. Látið ekki einfalda eigin könnun ráða úrslitum um bílaviðskipti. Þar sem bílar eru flókin og margbreytileg tæki getur jafnvel vönum bifvélavirkjum yfirsést hlutir við einfalda ástandskönnun. Fagleg könnun krefst verkfæra, mælitækja og bílalyftu.
Farið í gegnum athugunarlista og ef niðurstaðan er jákvæð er óhætt að reynsluaka bifreiðinni. Fyrir þá sem þekkja lítið til bifreiða er ráðlagt að fá aðstoð frá vini eða ættingja sem er betur að sér. Augu sjá betur en auga.
Áður en gengið er frá kaupum margborgar sig að láta fagmenn á verkstæði yfirfara bílinn. Mörg verkstæði skoða notaða bíla eftir nákvæmri forskrift og eru vel tækjum búin til að gefa glögga og ábyrga mynd af ástandi þeirra. Árleg aðalskoðun er mjög góð en hún miðast við að athuga hvort bíll sé í öruggu ástandi þegar skoðunin fer fram. Það er ekki hægt að treysta því að bíll sé góð söluvara af því að hann hafi staðist lögbundna skoðun.